154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[16:57]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það veldur mér áhyggjum hversu lítið hv. þingmaður gerir úr þeim eftirlitsheimildum sem verið er að fela valdhafa, lögreglunni, einkaleyfishafa á beitingu ofbeldis í samfélaginu okkar. Ég er ekki viss um að það myndi standast lög ef blaðamaður væri að elta fólk út um allar trissur og skrifa niður nákvæmlega hvað væri verið að gera. Ég er ekkert viss um að það myndi standast persónuverndarlöggjöf, ég er bara alls ekki sannfærð um það. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður ætlar að fara í ræðu á eftir en ég vildi beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvers vegna í ósköpunum verið er að setja þessa heimild inn ef þetta snýst ekki um neitt annað en það. Ég veit ekki til þess að blaðamenn hafi aðgang að efni úr öllum eftirlitsmyndavélum í opinberu rými á Íslandi. Ég held ekki, augljóslega ekki. (Gripið fram í.) Og ég er ekki á því að lögreglan eigi að hafa slíkar heimildir. Þetta er gríðarlega mikið inngrip án þess að það sé eftirlit. Jú, hluta af þessu svipar til heimilda sem svokallaðar leyniþjónustur hafa í öðrum ríkjum. Sum ríki sem við berum okkur saman við eru annars vegar með ákveðnar heimildir hjá almennri lögreglu og eru með sérstofnun sem sinnir reyndar aðallega eftirliti sem snýst um að koma í veg fyrir hryðjuverk, ekki skipulagða brotastarfsemi heldur hryðjuverk og ógn við ríkið sjálft og það er sérstakt sjálfstætt eftirlit með þeim stofnunum og líka sjálfstætt eftirlit með almennri lögreglu. Við erum ekki með það. Við erum ekki með eftirlit sem er sambærilegt við það sem tíðkast í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við og ekki með eftirlit sem þörf er á til að sú heimild standist stjórnarskrá.